154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Hildi Sverrisdóttur, við búum hér í einu öflugasta og besta velferðarsamfélagi heims og ég vil segja að það kemur ekki til af sjálfu sér. Fyrir því þurfti að hafa og það tókst okkur, íslenskri þjóð, að byggja okkar samfélag upp á þennan góða hátt. Það gerðum við með þeim gildum og þeim sjónarmiðum og þeirri hugsjón sem kom fram í ræðu hjá hv. þm. Teiti Birni Einarssyni; með skynsamlegri auðlindanýtingu þar sem við nýtum auðlindirnar okkar á ábyrgan hátt með fyrirsjáanleika og höfum skýrar leikreglur sem hægt er að fara eftir. Þannig náðum við að byggja þetta upp.

En svo heyrir maður bara hér endalaust úr þessum ræðustóli orðræðuna „við og þið“. Það er verið að tortryggja allt hérna. Allir sem ætla að reyna að skapa aukin verðmæti í þessu landi, ætla að byggja hér upp öflugt atvinnulíf, treysta byggðirnar, skapa hér verðmætasköpun fyrir byggðirnar, það hljóta að vera umhverfissóðar og gróðapungar. Þetta er ótrúleg orðræða hér úr þessum sal og ef við ætlum að hafa þetta að leiðarljósi þá komumst við ekkert áfram.

Því fagna ég tillögum sem komu fram í morgun frá starfshópi um aðra orkukosti. Þar er einmitt starfshópur búinn að vera í vinnu við að sjá hvernig við höldum áfram að nýta auðlindirnar okkar enn þá betur, nýta þau tækifæri sem íslensk þjóð gerir. Það er gert með því að hleypa einkaframtakinu í hugmyndirnar, af því að það er einkaframtakið og atvinnulífið sem er að búa til þessa nýsköpun, hvort sem það er í orkuvinnslu, sjávarútvegi, hugverkaiðnaði og annars staðar, sem skapar þau verðmæti sem íslensk þjóð flytur út. Við skulum sameinast á þeim báti, íslensk þjóð, fyrir íslenska velferð, að búa til samkeppnishæft umhverfi fyrir atvinnulíf í landinu þannig að við getum haldið áfram að framleiða verðmæti og verið um leið mestu náttúruverndarsinnar íslenskrar þjóðar.